Markaðseftirlit

Eftirlit með markaðssetningu byggingarvara er á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Eftirlit stofnunarinnar á þessu sviði felst í því að kanna hvort innflytjendur, dreifendur og framleiðendur byggingarvöru starfi í samræmi við ákvæði laga um byggingarvörur nr. 114/2014.

Varðandi byggingarvörur sem falla undir kröfu um CE merkingu er kannað hvort varan sé rétt CE merkt og hvort henni fylgi viðeigandi yfirlýsing um nothæfi. 

Sé vara þess eðlis að krafist sé tilkynnts aðila vegna CE merkingar hennar, s.s. vegna prófana eða úttektar/eftirlits með gæðakerfi, gerir markaðseftirlitið kröfu um að ábyrgðaraðili á markaðssetningu vöru geti afhent staðfestingu/vottorð tilkynnta aðilans um eftirlitið/ prófunina eða vísað til heimasíðu tilkynnta aðilans þar sem slík staðfesting er birt.

Markaðseftirlitið getur verið mun ítarlegra en að framan greinir því heimilt er að kanna hvort réttri aðferðarfræði sé beitt við CE merkingu vöru. Við markaðseftirlit má einnig krefjast sérstakrar prófunar á vöru liggi fyrir grunur um að vara uppfylli ekki kröfur.

Varðandi byggingarvörur sem falla ekki undir kröfuna um CE merkingu er kannað hvort tilskilin gögn fylgi vöru, sbr. nánari ákvæði III. kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014. Einnig er heimilt að krefjast sérstakrar prófunar á slíkum vörum liggi fyrir grunur um að vara uppfylli ekki kröfur.

Vakin er athygli á að markaðseftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar tekur eingöngu til þátta er varða byggingarvöruna sem slíka og þeirra gagna er eiga að veita upplýsingar um vöruna. Markaðseftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar tekur því ekki til þátta er varða samskipti seljanda og kaupanda, t.d. kvartana vegna aðfinnsluverðrar þjónustu þess er markaðssetur vöru.

Sjá nánar lög um byggingarvörur nr. 114/2014.