Markaðssetning

Í lögum um byggingarvörur nr. 114/2014 koma fram kröfur til markaðssetningar byggingarvöru.

Samkvæmt lögunum eru byggingarvörur „allar vörur eða samstæður sem eru framleiddar og settar á markað til varanlegrar ísetningar í mannvirki eða hluta þeirra og sem nothæfi þeirra hefur áhrif á nothæfi mannvirkjanna að því er varðar grunnkröfur um mannvirkin." Grunnkröfurnar eru skilgreindar nánar í I. viðauka laganna, en þær varða m.a. burðarþol og stöðugleika, varnir gegn eldsvoða, hollustuhætti, umhverfi o.fl.

Lög um byggingarvörur gera kröfu um CE merkingu á byggingarvöru þegar fyrir hendi er samhæfður staðall um viðkomandi vöru. Um 500 slíkir staðlar hafa nú þegar verið gefnir út. Lögin heimila einnig CE merkingu byggingarvöru á grundvelli svonefnds tæknimats að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ef hvorki er fyrir hendi samhæfður staðall um byggingarvöru né evrópskt tæknimat, en notkun vörunnar varðar engu að síður grunnkröfur, þarf að leggja fram sérstaka staðfestingu vegna ákveðinna mikilvægra eiginleika vörunnar. Þessir eiginleikar varða: Viðbrögð við bruna, brunamótstöðu, burðarþol og styrk, einangrunargildi, hljóðeinangrun og hljóðvist, loftþéttleika, slagregnsþéttleika, hitaþol, frostþol, efnaþol, gufuþéttleika, að varan spilli ekki gæðum neysluvatns (t.d. útfelling þungmálma), uppgufun/losun mengandi efna eða innihald efna sem falla undir 57. gr. REACH reglugerðar Evrópuþingsins.

Sjá nánar III. kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014.