Skyldur aðila

Hvað er rekstraraðili?

Lög um byggingarvörur nr. 114/2014 tilgreina þá aðila sem bera ábyrgð á því að markaðssett byggingarvara sé CE merkt á réttan hátt. Slíkir aðilar eru nefndir rekstraraðilar. Eftirtaldir aðilar eru rekstraraðilar skv. lögunum og bera ábyrgð á því að byggingarvara sem þeir bjóða fram á markaði sé rétt CE merkt og að henni fylgi yfirlýsing um nothæfi og þegar við á, auk fullnægjandi staðfestingar á aðkomu tilkynnts aðila að CE merkingar ferlinu.

Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili, sem framleiðir byggingarvöru eða lætur búa til eða framleiða slíka vöru og setur hana á markað undir sínu nafni eða merki.

Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem markaðssetur byggingarvöru frá landi utan EES svæðisins á innri markaði EES svæðisins.

Dreifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem gerir byggingarvöru aðgengilega á markaði.

Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan EES svæðisins sem hefur fengið skriflegt umboð frá framleiðanda til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni. Framleiðandi getur, með skriflegu umboði, tilnefnt viðurkenndan fulltrúa til að sjá um ýmis verkefni varðandi CE merkingu á byggingarvörum, þó ekki að útbúa tæknigögn. Viðurkenndur fulltrúi vinnur þau verkefni sem umboð hans nær til og á að minnsta kosti að sjá til þess að yfirlýsing um nothæfi og tæknigögn séu tiltæk fyrir markaðseftirlitsyfirvöld viðkomandi ríkis.   

Dreifandi / innflytjandi getur borið ábyrgð framleiðanda

Dreifandi eða innflytjandi vöru getur í einhverjum tilvikum borið ábyrgð framleiðanda. Það á t.d. við þegar dreifandi eða innflytjandi markaðssetur vöru undir eigin nafni, t.d. með eigin vörumerki eða gerir einhverja þá breytingu á vörunni sem hefur áhrif á yfirlýsingu framleiðandans um nothæfi vörunnar, sbr. 15. gr. reglugerðar ESB nr. 305/2011, sbr. lög um byggingarvörur nr. 114/2014.

Sjá nánar II. og III. kafla reglugerðar ESB nr. 305/2011, sbr. lög um byggingarvörur nr. 114/2014.